Heilnæmt inniloft!

Nú þegar kólnar í veðri, og við tryggjum að ofnar séu rétt stilltir og hlýtt sé í hýbýlum okkar, þá gott að muna að lofta einnig út til að tryggja rétt rakastig inni hjá okkur.
Viss raki þarf að vera til staðar í híbýlum því þurrt loft getur valdið mönnum óþægindum líkt og of mikill raki. Æskilegt er að rakastig innanhúss sé á bilinu 30-60%. Fjölbreyttar tegundir baktería, sveppa og myglu geta vaxið og fjölgað sér innanhúss ef nægur raki er fyrir hendi. Gott er því að lofta út, t.d leyfa gegnumtrekk tvisvar á dag í 5-10 mínútur í senn og fylgjast með því hvort að raki komi inná glugga, og þurrka hann þá sem fyrst ef svo er.


Á Íslandi er algengast að hús séu hituð upp með hitaveituvatni og eru ofnar jafnan staðsettir undir gluggum eða að hiti sé í gólfum. Þetta tryggir að þegar gluggar eru opnir þá myndast hringrás lofts um herbergi sem byggir á því að kalt loft leitar niður og heitt loft upp. Það er mikilvægt að ofnar í húsum séu í lagi af þessari ástæðu þar sem þá eru minni líkur á því að það myndist rakapollar í rýminu. Sérstaklega ber að nefna kuldabrú, en hún verður til á þeim stöðum í byggingum þar sem einangrun er staðbundið lélegri en almennt gerist í byggingunni, t.d. þar sem steypt milligólf og milliveggir ná út í steyptan útvegg sem er einangraður að innanverðu. Þegar inniloft kemst í snertingu við slíka fleti, sem hafa lægra hitastig, kólnar loftið og hlutfallsraki þess hækkar. Því skyldi sérstaklega fylgjast með raka á þannig svæðum. Slík svæði verða greinilegust á veturna þegar kalt er úti.

Til að fá nánari upplýsingar um þetta málefni, mælum við með lestri á eftirfarandi síðum;

https://www.efla.is/blogg/samfelagid/graetur-husid-thitt-1
https://www.efla.is/thjonusta/byggingar/rakaskemmdir-og-mygla
https://www.ust.is/library/Skrar/utgefid-efni/Annad/Inniloft,%20raki%20og%20mygla_2015%20KH.pdf